Stundum er ekki nóg að taka veikt barn heildrænum tökum heldur er orsakanna oft að leita hjá öðrum í fjölskyldunni. Þá hefur það ekkert upp á sig að meðhöndla barnið eitt og sér, heldur verður að leggja alla fjölskylduna undir til þess að árangur náist. Breski hómópatinn, Elizabeth Adalian, kennari við College of Homæopathy í London, leggur áherslu á þessa nálgun. Hún segir (í The Homæopath No 68) að foreldrum dugi lítt að sópa óþægilegri reynslu undir teppið, því hún hafi sem annað í þeirra upplagi borist í börnin og kemur svo fram hjá þeim í einhverri vanlíðan; útbrotum og exemi til dæmis. Oft er komið með barn í meðferð, þegar ljóst er að fjölskyldan er í uppnámi eða foreldrarnir búa yfir reynslu sem hefur slæm áhrif á alla fjölskyldumeðlimina. Adalian útskýrir þetta þá fyrir foreldrunum og fær samþykki þeirra fyrir því að taka hvern og einn í meðferð, sem leiðir til varanlegrar heilsubótar, fyrir alla í fjölskyldunni. Slík fjölskyldumeðferð segir hún ekki aðeins bæta heilsufarið í fjölskyldunni heldur líka fjölskylduböndin, sem styrkjast um leið. Hún nefnir dæmi um barn sem skyndilega fór að væta rúmið. Remedíur við slíku dugðu ekki til þess að barnið hætti þessu. Það var ekki fyrr en orsökin fannst hjá móðurinni að hægt var að lækna barnið. Móðirin byrgði inni sorg vegna fráfalls vinar til þess að vernda fjölskylduna, en sorgin fór í barnið og braust út í því að barnið fór að pissa undir. Þegar rót vandans lá fyrir, var hægt að velja viðeigandi remedíu og bæði móðir og barn urðu heil heilsu. Öðru sinni var komið til Adalian með barn sem þjáðist af astma og exemi og það svo að það hélt vöku fyrir móður sinni á nóttunni. Hún varð langþreytt á þessu og höst í garð barnsins sem versnaði aðeins fyrir vikið. Þegar móðirin loks viðurkenndi að hún hefði ekki stjórn á sínum málum og fór í meðferð náði barnið loks andanum og hægt var að taka það í þá meðferð sem dugði. Þriðja dæmið sem Adalian nefnir er ótti sem kom fram hjá níu ára dreng og var svo sterkur að hann þorði ekki einn upp á efri hæð heimilisins. Ekkert gekk að losa drenginn við þennan ótta fyrr en öll fjölskyldan fór í meðferð og þannig tókst að vinna bug á óttanum. Fjölskyldan bjó að þeirri reynslu að komast af úr útrýmingarherferð nasista, en rannsóknir hafa sýnt að slík reynsla getur fylgt tveimur, þremur kynslóðum. (JÁ tók saman úr kennslu hjá Adalian í COH).