UM FIMMTUGT gæti þig verið farið að gruna að þú sért að eldast þótt þú hafir gert þitt besta til að halda heilsu. Fyrir marga einstaklinga á milli fimmtugs og sextugs er þetta uppskerutímabil og breytingaskeið, við lítum til baka á sorgir og sigra og framá við á nýjar áskoranir og verkefni lífsins. Sumir fagna breytingum, aðrir eiga erfitt með þær. Sagt er að sumu getum við stjórnað og öðru ekki; sumsé að sumt sé ekki í okkar höndum. Farsælast er þó að sjá sig við stjórnvölinn en þiggja líka aðstoð annarra til að leiðrétta það sem farið hefur úr böndum. Hætta á krónískum kvillum eykst með aldrinum en það er líka margt sem þú getur gert til að lágmarka þá hættu.
Hafirðu lifað óheilsusamlegu lífi þarftu að spýta í lófana og hugsa vel um þrennuna hug, sál og líkama. Borða holla og óunna hreina fæðu og vel af ávöxtum og grænmeti, góðu próteini og fitusýrum, trefjum, heilkorni, vítamín og steinefni. Dragðu úr saltnotkun og óheilbrigðri fitu. Fá daglega góða hreyfingu þar sem tekið er á til að styrkja hjarta og lungu. Ganga, hjóla, hlaupa, dansa eða hvaðeina sem þú nýtur að gera því þá heldurðu þig frekar við efnið. Virkja heilann og vera í sambandi við fjölskyldu og vini sem skipta máli. Finna sér gott áhugamál sem hentar. Gæta þyngdarinnar því það hægir á niðurbroti með aldrinum svo líkamslögun breytist með þyngdaraukningu og á þetta helst við hjá konum yfir fimmtugt og það er tilhneiging til að skipta út vöðvum fyrir fitu því fita brennir færri kaloríum en vöðvinn og þyngdar-vítahringinn er erfitt að brjóta öðruvísi en með hreyfingu og réttu mataræði.
Eins og fram kom í sjónvarpinu nýlega er gott ráð að mæla hæð sína með bandi, skipta því til helminga og setja um miðjuna. Nái endar ekki saman bendir það til kviðfitu sem þarf að draga úr. Fylgstu því með mittismálinu. Góður svefn gefur gæfumuninn og rétt að leita sér aðstoðar sé um svefnvanda að ræða. Oft eru undirliggjandi áhyggjur, kvíði eða næturþvaglát og hitakóf orsökin og þá þarftu aðstoð meðferðaraðila. Áfengi skaltu hafa í algeru lágmarki og einnig tóbak. – Málið er að allt í einu eins og þruma úr heiðskíru lofti eftir fimmtugt geta allskyns kvillar farið að banka upp á s.s. eins og blóðsykursvandamál, sykursýki II, kvíði, krabbamein í brjósti, blöðruhálsi, ristli og húð, sjónbreytingar, krónískir verkir, gigt, allskyns bólgur, bakverkur, þunglyndi, meltingarkvillar, ristruflanir, hárlos, heyrnartap, hjartasjúkdómar, blóðþrýstingshækkun, kólesteról-hækkun, breytingaskeið en meðalaldurinn er 51 árs; svita- hitakóf, þyngdaraukning, þurrkur í leggöngum, kyndeyfð, aukin áhætta á hjartasjúkdómum, beinþynningu o.fl. Ofvirk blaðra, blöðruhálskirtilsvandamál, húðvandamál, bólur, sólskemmdir, lifrarblettir, hrukkur, húðþurrkur, skjaldkirtilsvandamál og þvagleki. (JÁ tók saman).