Hómópatinn Sigurður Jónsson

Sigurður Jónsson hómópati fæddist 2. maí 1843 á Fossá og lést 23. júní 1926 í Lambhúsum á Akranesi. Ólafur B. Björnsson ritaði árið 1943 grein í blað sitt Akranes sem hann nefndi: „Sigurður hómópati – aldarminning“ þar sem segir m.a. “Ekki er það efamál að Sigurður hefur verið vel gefinn til sálar og líkama, ekki er það heldur efamál að hann hafði snemma og alla ævi löngun og hæfileika til læknisiðkana, enda fékkst hann nokkuð við það alla tíð en þó mest um það skeið ævinnar sem örðugast var að ná til lækna vegna fæðar þeirra og samgönguerfiðleika. Á þeim tíma sem Sigurður var að alast upp var ekki auðið að njóta mikillar menntunar þótt löngun stæði til. Vegna ákafa síns um menntun var honum komið um mánaðartíma til Reynivallaprests. Þar lagði hann mesta stund á að komast niður í danska tungu, var það allur hans lærdómur en dugði honum það að hann lærði allvel dönsku fyrir þennan undirbúning, heldur nam hann svo vel þýsku af sjálfsdáðum að hann las allmikið af lækningabókum á því máli og pantaði meðöl beint frá útlöndum, sérstaklega framan af. Sigurður var sérstaklega nærfærinn við menn og skepnur eins og sagt er. Sat yfir mörgum konum, fór það vel úr hendi, varð aldrei að meini. Var oft sóttur langan veg … verður því ekki neitað að hann þótti oft heppinn í lækningum sínum sérstaklega lungnabólgu og fleira. Mér er sagt að Sigurður hafi verið tveggja manna maki til hverskonar líkamlegrar vinnu, meðan hann var og hét, en aldrei var hann svo þreyttur eða illa fyrir kallaður að hann tæki ekki í bók í hönd í matmálstímum. Lund hans og hugarþel var óvenjulega þýtt og hlýtt, var hann ekki ósjaldan mannasættir … sigraði þannig oft misjafnt í fari annarra með sínu góða innræti. Að ytra útliti var Sigurður víkingur sem og að afli og áræði, þó var hann svo lipur að hann var talinn afburða glímumaður. Þrátt fyrir þetta var hugur hans og hjarta bljúgt og barnslegt sem ekkert aumt mátti sjá og sem fyrst og fremst vildi láta gott af sér leiða, það er margsagt og sannreynt að hann bar oft giftu til að gera gagn“.

Vísur ortar af Sumarliða Halldórssyni til Sigurðar hómópata

Og þegar læknar urðu mát
og öll var þrotin viska þeirra og dáðin.
Þá breyttirðu oft í gleði þungum grát
Og gáfust best þín lyf og hollu ráðin.
Þess finnast dæmi fjöldamörg og skýr
Af fimmtíu ára læknisstörfum þínum.
Því mun þinn lifa hróður hreinn og dýr
Og hinir græddu þakka lækni sínum.
Í vinahóp þú fluttir líf og fjör
Menn fagna að sjá og heyra gesti slíka
því með þér gleði og geislar voru í för
þú gladdir jafnt hinn snauða og hinn ríka.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s