Alþýðulækningar á Íslandi

Hér á landi sem annars staðar í heiminum voru karlar og konur sem þekktu eiginleika margra jurta og vissu hvernig skyldi nota þær til lækninga. Stundum bregður fyrir þeirri trú að samfara notkun lyfja og algengra handlæknisaðgerða verði að hafa um hönd einhvers konar töfra og fara að með sérstökum hætti þegar lækningajurtum er safnað og þær tilreiddar til notkunar. Þegar jurtir eru tíndar verður að gera það við tiltekna afstöðu himinhnatta, oftast tunglsins, enda mikilvægt að sumum jurtum skuli safnað þegar stórstreymt er, sem þýðir venjulega að tungl skuli vera nýtt eða fullt. Tími dagsins hefur einnig áhrif á mátt jurtanna, og jafnvel ástand þess sem safnar. Vart þarf að taka fram að þetta er hluti af hugmyndum um margt annað í lífi manna og í náttúrunni sem háð er afstöðu himintungla, flóði og fjöru.

Í fyrsta þætti leikritsins Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson (1941) er Vilborg grasakona að sjóða lyf af ýmsum grösum. Orð hennar lýsa vel kjarnanum í hugmyndafræði alþýðulækna, karla og kvenna, sem þekktu vel til mismunandi eiginleika jurta og vissu hvernig skyldi fara að við söfnun þeirra og búa til úr þeim lyf. Hún segir: „Grös hafa aðskiljanlegar náttúrur. Reynslan hefur kennt mér að aðgreina þær og vita hvað best hentar hverjum krankleika. – Sum grös eyða óheilnæmum vessum og eitursýrum líkamans, önnur magna blóðsterkjuna og þar með orku tauganna. Aftur eru til grös sem aðeins draga úr óhæfilegum vindsperringi innyflanna. Sum eiga að sjóðast við hægan eld, önnur við logandi bál. Og oft skiptir það miklu máli, að notaður sé réttur eldsmatur. Eina jurtina má aðeins sjóða við hrís eða lyng, aðra við rauðviðarsprek, sem ráku á land með stórstraumsfjöru, þriðju við sauðatað úr vel öldum lambgimbrum. Og svo má blanda seyðið, sinn dropann af hverju, í einu og sömu inntöku“.

En þar með er ekki allt sagt. Það verður einnig að gæta að hvar grösin eru tínd og hugfarinu við lyfjagerðina verður að haga eftir eðli sjúkdómsins.

Þetta á þó ekki við um alla þá sem fást við grasalækningar, nema hvað enn er talið heppilegt að taka mið af ýmsu þegar leitað er lækningajurta, til dæmis hvenær á æviskeiði jurtarinnar skuli tína hana.

Lækningar á söguöld

Snemma á öldum fer að verða vart erlendra lækningabóka, einkum grasabóka hér á landi. Margt er tínt til úr verkum Harpestrengs allar götur síðan þau urðu þekkt hér á landi. Flestar þær grasabækur sem notast var við á Íslandi á síðari öldum eru taldar byggðar á verkum Harpestrengs (Jón Steffensen, 1975, bls. 161 og 185, Jón Steffensen, 1990, bls. 132–133, Vilmundur Jónsson, 1970, bls. 18).

Eftir siðaskiptin fjölgaði lækningabókum af erlendum uppruna og bartskerar og yfirsetukonur fengu viðurkenningu til að starfa hér á landi. Í hinum þýddu lækningabókum er margvíslegur fróðleikur um eiginleika mismunandi grasa og steina.

Þegar fjallað er um alþýðulækningar hér á landi verður að hafa í huga að lengst af voru lækningar annars vegar handlækningar og hins vegar lyflækningar, en í báðum tilvikum voru stundaðar jöfnum höndum reynslulækningar og töfra- eða huglækningar. Alþýðulækningar bera keim af hvoru tveggja. Ítarlegar heimildir um alþýðulækningar á Íslandi hafa ekki verið teknar saman en þar er mikill efniviður enn lítt kannaður. Í þjóðsögum og þjóðsögnum er sagt frá margvíslegum húsráðum og í ævisögum og fróðleiksgreinum segir frá ýmsu merkilegu um hvernig brugðist var við sjúkdómum og alls konar uppákomum (Jónas Jónasson, 1945, bls. 311–333).

Þar eð engir lærðir læknar störfuðu á landinu fyrr en Bjarni Pálsson varð landlæknir 1760 voru lækningar hér á landi einungis alþýðulækningar. Stöku sinnum komu þó erlendir læknar og var leitað til þeirra þá stuttu stund sem þeir flestir hverjir dvöldust í landinu.

Átök um lækningar

Um miðja nítjándu öld hófst nýtt skeið alþýðulækninga á Íslandi. Þá var farið að kynna og stunda smáskammtalækningar sem höfðu þá um hálfrar aldar skeið verið tíðkaðar í Evrópu og borist til Ameríku. Þeir sem fyrstir eru taldir hafa kynnt hér á landi hugmyndafræði Hahnemanns, frumkvöðuls smáskammtalækninga, voru tveir prestar, séra Magnús Jónsson á Grenjaðarstað og séra Þorsteinn Pálsson á Hálsi. Kynntu þeir hugmyndafræði hans hér á landi. Báðir beittu þeir aðferðum hómópata, eins og þeir voru oftast kallaðir.

Brátt hófust miklar deilur um þessar hugmyndir, eins og reyndar hafði gerst víðast annars staðar þar sem smáskammtalækningar voru stundaðar. Jón Hjaltalín landlæknir gagnrýndi hugmyndafræði hómópata harðlega í tveimur bæklingum, einkum málflutning séra Magnúsar (Jón Hjaltalín, 1856, 1858. Vilmundur Jónsson, 1970, bls. 77–79).

Fylgjendur hugmyndafræði hómópata mæltu með því að lærðir læknar (stórskammtalæknar eins og þeir voru stundum kallaðir) og smáskammtalæknar ynnu saman í stað þess að standa í deilum. Frá upphafi nutu hómópatar velvildar almennings og var oft leitað til þeirra. Nokkrir rituðu greinar í blöð og tímarit þar sem borið var lof á starfsemi þeirra.

Jón Hjaltalín reyndi að fá starfsemi hómópata bannaða og kærði einn þeirra. Var því máli vísað frá af dönskum yfirrétti þar eð ekki hefði verið sýnt fram á meðferð hans á sjúklingum hefði valdið skaða.

Það er ekki einsýnt hvort telja skuli smáskammtalækningar til alþýðulækninga þar eð þær byggðust á fræðilegum kenningum lærðra lækna. En þar eð það voru víðast hvar einkum leikmenn sem stunduðu smáskammtalækningar er rétt að geta þeirra í sambandi við þær.

Um miðja nítjándu öld hófst mikið framfaraskeið í flestum vísindum. Segja má að þá verði læknisfræði nútímans til. Þekking á allri líkamsstarfsemi jókst og vonir kviknuðu um að brátt mundi takast að vinna bug á flestum sjúkdómum og mannanna meinum. Hómópatar nutu góðs af þeirri bjartsýni sem ríkti og meðul þeirra voru síst talin lakari en þau sem fengust í apótekum. Samhliða jókst svo áhugi fólks á alls konar lyfjum sem áttu að vera allra meina bót: Kína-lífs-elexír, Volta kross og Brahma voru allsherjarmeðul sem margir töldu að dygðu gegn flestum kvillum. Þess má geta að Kína-lífs-elexír var framleiddur á Seyðisfirði á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar (Smári Geirsson, 1989, bls. 140–164).

Enda þótt læknum á Íslandi fjölgaði að mun á nítjándu öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu dró síst úr áhuga á smáskammtalæknum. Yfirvöld reyndu að sporna við starfi þeirra en ekki virðist sem ætíð hafi hugur fylgt máli. Þó komu upp mál sem ollu miklu fjaðrafoki um hríð og nokkrir menn voru dæmdir fyrir ólöglega lyfjasölu.

Þekktastur hómópata hérlendis var Lárus Pálsson, oft kallaður Lárus hómópati. Var leitað til hans hvaðanæva að af landinu og fór mikið orð af hæfni hans við að greina sjúkdóma og kunna ráð við þeim (Guðrún P. Helgadóttir, 1995).

Annar nafnkenndur hómópati var Arthur Ch. Gook. Hann var enskur og kom til Íslands sem trúboði 1905. Starfaði hann jöfnum höndum að trúboði og smáskammtalækningum. Fleiri mætti nefna sem orð fór af fyrir nærfærni við að greina sjúkdóma og græða mein. Nokkur dæmi eru um að hómópatar væru ákærðir fyrir störf sín og var þeim oftast gefið að sök að hafa þegið greiðslu fyrir lyf sem þeir útbjuggu sjálfir. En nokkur dæmi eru einnig um að menn fengju leyfi yfirvalda til að stunda smáskammtalækningar (Erlingur Davíðsson, 1972).

Þeir hómópatar sem hvað bestum árangri náðu að dómi almennings, Lárus og Arthur Gook, lögðu sig eftir að læra sem mest um almennar lækningar. Þeir lásu bækur um læknisfræði og hvöttu unga menn sem leituðu til þeirra um fræðslu að kynna sér sem best allt er lýtur að líffærafræði og almennri líffræði. Svo var einnig um marga þá sem um aldir fengust við að útvega lyf og leita ráða við sjúkdómum. Eru mörg dæmi þess að menn hafi orðið sér úti um lækningabækur af ýmsu tagi. Er vafalaust að margir hafa aflað sér töluverðrar þekkingar á sjúkdómum og meðferð þeirra af erlendum fræðiritum í læknisfræði.

Grasalækningar

Þrátt fyrir vinsældir hómópata virðist sem ekkert hafi dregið úr trausti fólks á grasalæknum. Eins og áður hefur komið fram hafði safnast mikil þekking á græðandi og læknandi eiginleikum ýmissa jurta. Þórunn Gísladóttir var alþekkt fyrir grasalækningar sínar og þekkingu á græðandi og bætandi eiginleikum jurta. Enn þann dag í dag fást afkomendur hennar við að búa til lyf úr jurtum sem þeir safna sjálfir og meðhöndla eftir fornum sið. Sonur téðrar Þórunnar var Erlingur Filippusson og starfaði hann um langt skeið að grasalækningum með góðum árangri að margra dómi. Afkomendur Grasa-Þórunnar fást enn við grasasöfnun til lyfjagerðar (Atli Magnússon, 1987; Gissur Ó. Erlingsson, 1995).

Á því leikur enginn vafi að grasalækningar voru merkilegur þáttur í sögu lækninga á liðnum öldum og enn þann dag í dag er fólk sem stundar þær af miklum áhuga og fjöldi fólks leitar til grasalækna og margir með góðum árangri að því að sagt er. Hafa þær öðlast nýjan blæ eftir að farið var að kanna á vísindalegan hátt eiginleika ýmissa jurta sem notaðar hafa verið af grasalæknum hér á landi.

Fjórir flokkar alþýðulækninga.

Alþýðulækningum má skipta í fjóra flokka sem þó skarast í sumum tilvikum. Fyrst skal þá telja grasalækningar og fjölmörg húsráð sem mörg eru enn notuð. Sumt af því ber keim af kenningunni að líkt skuli líkt út drífa. Það á þó ekki við nema hluta af grasalækningunum.

Í öðru lagi eru athafnir sem eru nánast töfrakenndar, særingar, bænir, handayfirlagningar, notkun gripa sem taldir eru búa yfir læknandi mætti sé þeim rétt beitt og jafnvel er reynt að lækna með orkustreymi frá tilteknum einstaklingum. Straum- og skjálftalækningar, sem skutu upp kollinum fyrir nær sjötíu árum hérlendis, eru af slíku tagi (Vilmundur Jónsson II, 1985, bls. 121–163; Halldór K. Laxness, 1967, bls. 171).

Í þriðja lagi eru andalækningar sem eru mjög sérstakur þáttur í baráttunni við mannanna mein. Þær byggjast á því, að talið er að látnir læknar annist sjúklinga og beiti þekkingu sinni til að gera það sem lifandi læknum hefur verið um megn. Hugsunin virðist sú, að hinir framliðnu hafi öðlast nýrri og fullkomnari þekkingu fyrir handan en þeir réðu yfir í jarðlífinu. Eru mörg dæmi um þess konar starfsemi hérlendis allt til dagsins í dag.

Í fjórða lagi eru það svo smáskammtalækningarnar, hómópatí, sem byggjast á tiltekinni hugmyndafræði Hahnemanns um eðli og virkni efna eins og fjallað hefur verið um hér að framan. Það er umdeilanlegt hvort skuli telja þær til alþýðulækninga eins og þegar hefur verið minnst á. Rök fyrir því væru þá, að hér á landi voru þær stundaðar fyrst og fremst af leikmönnum, það er af fólki sem ekki hefur hlotið akademíska menntun í læknisfræði. Sama máli gegnir um ýmsar grasalækningar. Þar fór oft saman mikil þekking á eiginleikum jurta og uppsöfnuð reynsla margra kynslóða.

Enda þótt enn hafi margir mikla trú á að alls konar meðferð, lyf og andleg orka stuðli að bata þeirra sem sjúkir eru og vafalaust séu enn notuð forn húsráð við kvillum, þá hefur orðið sú breyting að nú er boðið upp á meðferð og aðgerðir við hlið hinnar akademísku læknisfræði sem byggjast á reynslu og vísindalegum aðferðum. Í mörgum tilfellum eru mörkin milli akademískrar læknisfræði og hefðbundinna aðferða orðin harla óglögg og innan læknisfræðinnar rúmast nú margt sem fyrir nokkrum áratugum naut þar lítillar virðingar. Dæmi um það eru nálastunguaðferðirnar kínversku.

Alþýðulækningar, sem einnig kallast hefðbundin meðferð, hafa verið nauðsynlegur og merkilegur þáttur í því að fást við sjúkdóma og kröm og full ástæða til þess að kanna ítarlega hlutverk þeirra og árangur á liðnum öldum og í heilbrigðisþjónustu landsmanna nú til dags, bæði til ills og góðs. Enn þann dag í dag leita sjúklingar bata á margvíslegan hátt og mikill fjöldi þeirra lætur sig litlu skipta hvaðan gott kemur. Grasalækningar, andalækningar, gömul og ný húsráð eru að margra mati jafngagnleg og flókin lyfjagjöf, gagnreyndar aðgerðir sérfræðinga og þrauthugsaðar aðferðir til að draga úr kvillum og uppákomum.

Ekki er vitað með vissu hve margir sækja til grasalækna eða þeirra sem fást við störf græðara hér á landi en nokkrar athuganir benda til að sá hópur sé allstór. Tuttugu og fjórir til fjörutíu af hundraði þeirra sem spurðir hafa verið segjast hafa leitað ráða utan hins almenna heilbrigðiskerfis. Þess ber þó að geta að flestir þeirra munu einnig hafa leitað til löggiltra heilbrigðisstétta. Það er í sjálfu sér eðlilegt að þeir sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómi leiti allra ráða til að öðlast bata og séu þá fúsir til að reyna eitthvað sem er utan við hið viðtekna í heilbrigðisþjónustunni.

 Hluti úr skýrslu sem tekið var af Netinu úr Skýrslu heilbrigðisráðherra um græðara og starfsemi þeirra á Íslandi. (Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.) (Sigrún Árnadóttir tók saman og birti á vefsíðunni homopati.is)

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s