
Lífið er yin og yang, lögmál andstæðnanna. Sagt er að hlátur og grátur séu systur sem haldast í hendur. Eins er með líf og dauða þá eilífu hringrás. Sjálf hef ég frétt að barn hafi fæðst eða að von sé á barni í fjölskylduna og jafnvel þann sama sólarhring að annar fjölskyldumeðlimur hafi kvatt jarðlífið. Alltaf verður maður jafnhissa og skynjar þá svo sterkt hve stutt bilið er á milli gleði og sorgar. Ég hef upplifað þær náðargjafir að vera viðstödd þegar lífið birtist í fyrsta andardrætti og þegar það hvarf með þeim síðasta.
Eftir lát eiginmanns míns féll mér í fang bók um dauðann eftir konu sem vann við það að sitja við dánarbeð. Lesturinn var mér nokkur huggun og hugurinn reikaði til baka. Stundin sem við áttum við dánarbeð hans var einstök upplifun, ekki síst vegna þess að hann var með fullri rænu allt til enda. Þegar allt var yfirstaðið hugleiddi ég það hvort ég hefði getað gert eitthvað betur, eða gert meira – en landaði því í sátt með að hafa gert allt það praktíska sem hann bað um því það er það sem skiptir mestu, burtséð frá mínum skoðunum og annarra. Eitt er það sem ég vildi þó hafa gert óbeðin, sem var að panta tónlistarfólk til að spila fyrir hann á fiðlu og selló tónverk sem hann hafði dálæti á. En öldur tilfinningarófsins byrgðu mér sýn á þann möguleika í okkar aðstæðum þá.
Ég heyrði viðtal við unga stúlku á Rás 1 sem sagðist starfa við það m.a. að koma að dánarbeði fólks sem unni tónlist og spila fyrir það á hljóðfæri. Eftirminnilegt var þegar hún lýsti gleðinni sem í því fólst. Heyrnin fer síðast hjá þeim deyjandi svo þetta er upplagt að gera þegar við á. Eins það að hvísla orð í eyra, þakka fyrir allt og allt.
Þegar við sitjum við dánarbeð einhvers þá sitjum við hljóð. Við hlaupum ekki út né heldur tökum upp símann til þess að hringja í lækni, hjúkrunarfræðing eða nokkurn annan. Við drögum djúpt andann og erum í núinu.
Það er náð að vera við dánarbeð ástvinar eða hvers sem er þegar umskiptin verða úr þessum heimi. Við síðasta andardrátt er ótrúleg helgi í rýminu. Hulan milli heimanna opnast og margir skynja nærveru horfinna ástvina. Ekki eru allir svo heppnir að fá þessa stund með sínum þegar andlát ber að með skyndilegum og eða jafnvel voveiflegum hætti.
Við tölum ekki mikið um dauðann svona almennt – og erum því bæði óundirbúin og óþjálfuð í að takast á við hann. Af hverju forðumst við að tala um dauðann? Sumir telja að með því sé maður að tala sig og aðra í dauðann. Gefa upp alla von! En skyldi það vera rétt mat?
Ekki á ég svar við því en eins og segir í laginu Livet er ikke det værste man har, om lidt er kaffen klar – gæti það sama átt við um dauðann að kannski sé hann ekki það versta í stöðunni, allavega ekki afneita honum heldur anda djúpt, viðurkenna óttann og sleppa. Vera í raunverulegri tengingu við það sem er að gerast, fá sér kaffisopa og njóta lífsins meðan stætt er.
Húmor, glens og grín er það sem heldur mér gangandi þegar sorg sækir að. Ég veit að það er eins með marga en alls ekki alla. Þannig er það með alla hluti. Ekki óttast það að heimsækja fólkið ykkar sem hefur fengið dauðadóm eða er á dánarbeðnum. Margir segjast ekkert vita hvað þeir eigi að segja eða gera. Mín reynsla er sú að maður þarf ekki að hafa áhyggjur af slíku, bara vera til staðar. En ég ætla að segja ykkur þrjár sögur af erfiðum stundum sem allar urðu til þess að gefa gleði í sorg.
Ég heimsótti einn uppáhaldsfrænda 45 ára á dánarbeðinn sem fékk þann dóm að eiga þrjá mánuði eftir ólifaða. „Jæja hvað segirðu þá frændi“ sagði ég alveg miður mín. „Elsku besta“, sagði hann þá, „þetta jafnast ekkert á við Móðuharðindin“.
Ég heimsótti annan uppáhaldsfrænda fimmtugan á líknardeildina í Kópavogi. Hann var þar einn á tveggja manna stofu og þegar ég spurði hvernig hann hefði það, benti hann á hitt rúmið, reisti augabrúnir, nokkuð drjúgur með sig og sagði: „Maður hefur það bara gott, hefur þetta allt prívat núna. „Ókei sagði ég, hvernig stendur á því“ spurði ég. „Nú gæinn er farinn“ sagði hann. „Nú, hvert fór hann“ spurði ég. Þá benti hann á gólfið og sagði: Six feet under. – Úbs! Æjæjæjæ. Já auðvitað!
Síðasta augnablik ömmu með rænu á banabeðnum var að hlusta á Skagamenn spila um bikarinn í beinni útsendingu. Hún hafði mestar áhyggjur af því að Logi fengi ekki landsliðið og hvað hann yrði þá svekktur. Anga kallinn. Sagði svo að við gætum selt glænýju inniskóna sína að henni genginni. Já þetta er húmor í lagi og hjálpaði svo sannarlega í sorgarferlinu.
Það er í góðu lagi að hafa gaman af lífinu og líka dauðanum – svona eftirá að hyggja þá eru það þær minningar sem koma helst upp þegar sárasta sorgin sleppir. Gleðin er hjartanu góð.
Tölum um umskiptin – dauðann – eins og allt annað af virðingu. Sem meðferðaraðili verð ég oft vitni að því hve þung byrði það er mörgum að tala um þessi mál. Hómópatískar remedíur hafa gagnast vel sem göngustafir gegnum sorgina eins og ég kalla það. Acon/Gels og Arsenicum í upphafi mála þegar erfiðar fréttir setja fólk úr jafnvægi vegna ótta við hið óþekkta eða dauðann. Remedíurnar Ignatia og Natrum mur eru mest notaðar í sorgarferlinu. (Höfundur: JÁ).