Er ekki kominn tími til að tengja?

Það er augljóst að samspil hugar og líkama á stóran þátt í krankleikum mannsins. Þá hefur verið rannsakað samspilið á milli viðhorfa okkar og fortíðarreynslu og veikleikamynstursins sem við dílum við. Til eru aðferðir sem gera okkur kleift að finna týnda hlekkinn sem leysir gátuna. Það er ótrúlegt að nútíma læknisfræði skuli vera ófær um að finna út uppruna flestra sjúkdóma, þrátt fyrir mjög nákvæmar greiningar og rannsóknir á ójafnvægi í líkamanum hvort heldur hann er erfður, efnafræðilegur, hormónatengdur, frumutengdur eða vegna vírusa, baktería, sníkjudýra, sveppa-sýkinga eða annarra örvera. Orsök veikleikans er allt of oft óþekkt fyrirbæri og jafnvel sagt að hún sé vegna streitu. En hvað er streita raunverulega og hvernig framkallar hún þennan haug heilsufars-vandamála. Rannsóknir gefa sterkar vísbendingar um það og að það sé ekki vegna innri starfsemi frumunnar sem gerir okkur móttækileg fyrir ákveðnum sjúkdómum heldur sé miklu fremur háð því hvernig við bregðumst við umhverfi okkar. Því leyfi ég mér að segja að sjúkdómur sé ekki einhver tilviljun. Svokallaðir andlegir og tilfinningalegir sjúkdómar eru tilraun líkamans til þess að framleiða líffræðilegar breytingar svo hann sé færari um að takast á við það sem við erum að díla við hverju sinni. Hvað er á bak við ákveðna en mismunandi hegðun okkar í hinum ýmsu aðstæðum? Hvort heldur viðbrögðin eru neikvæð eða jákvæð þá er það fyrri reynsla okkar sem ákvarðar viðbrögðin. Sá sem hefur upplifað áfall skapar viðhorf og kemst að niðurstöðu um sjálfan sig og heiminn umhverfis hann. Þær forsendur fara beint inn í undirvitundina sem býr til uppskrift að varnarkerfi til að bregðast við í álíka aðstæðum sem koma hugsanlega upp í framtíðinni. Þannig að hvað eru viðhorf? Þau skapa upplifun s.s. „Ég er ein“. „Fólki líkar ekki við mig“. „Heimurinn er hættulegur“. „Ég er hálfviti“. „Það er alveg sama hvað ég geri, ekkert er nógu gott“. „Ég þarf að vera við stjórnvölinn“. „Ég verð að vera fullkomin“ og svona mætti lengi telja og þegar þessi neikvæðu viðhorf fara að hafa áhrif á líf okkar, bregðumst við ósjálfrátt við með smá ótta sem oft er túlkaður sem varnar- eða flóttaviðbrögð. Það er streituástandið sem breytir alltaf líkamskerfinu og virkni þess. Ef við lifum í þessu ástandi nokkuð reglulega munu líkamar okkar gera breytingar á frumusviðinu, efnalega og hormónalega. Þetta getur jafnvel haft áhrif á erfðaþáttinn. Ég mun svo síðar fara yfir það hvernig mismunandi viðhorf hafa bein tengsl við mismunandi kerfi og líffæri. Þú getur lært að þekkja þín eigin neikvæðu viðhorf og leysa úr þeim sem mun þá leysa upp streituna sem gefur líkamanum tækifæri á að heilast. Meðferðaraðilar hafa öðlast skilning á þessu fyrirbæri í eigin baráttu við sín vandamál. Sumir lýsa því sem leiðinni úr myrkinu til ljóss og heilsu. Það var einmitt eigin vanheilsa sem varð til þess að ég leitaði mér lækninga gegnum orkulækningar og settist á skólabekk til að verða meðferðaraðili. Eftir útskrift í COH árið 2000 hef ég verið óstöðvandi í að afla mér þekkingar, fyrst og fremst til að öðlast skilning á eigin ástandi og finna leiðir til þess að snúa við skjaldkirtli sem var í ójafnvægi, bólgum, gigt, umgangspestum, ofnæmi, verkjum og nú síðast örmögnun (börn-áti). Sá góði árangur sem náðist varð til þess að ég fór að þróa meðferðir, blanda þeim meira saman eftir því sem við á í hverju tilfelli fyrir sig. Allar aðferðirnar má flokka undir skammtafræði og lífsveiflufræði hvort heldur er um að ræða hómópatíu, EFT, MRI sem gerir manni kleift að vinna með yngra sjálfið og atburði sem urðu í fortíðinni og breyta viðhorfi sem þá festist í undirvitundinni og læra af reynslunni. Meta-medisin eða Meta-Health er aðferð sem getur fundið nákvæmlega út hvenær og af hvaða toga ákveðinn atburður fór að leiða til sjúkdóms og því vinna þessar tvær aðferðir vel saman í að leysa upp ákveðið óheilbrigt mynstur og snúa dæminu við. Að leysa upp áföll og umbreyta tilfinningum er því undirstaða þess að við getum náð að heila okkur sjálf.
Rumi sagði: Mér leið þannig í gær að finnast ég svo klár að ég gæti breytt heiminum. En í dag er ég vitur svo að ég er að breyta sjálfum mér. Fyrri setningin hefur fylgt sjálfri mér í áratugi en það var nú bara um mitt ár 2015 sem síðari setningin varð raunverulega lífsmottóið mitt. En áður en það gat orðið þurfti ég að brotna, semsé til að opna (augun – að brjóta upp – þurfti ég að brotna (andlega). Það sem ég taldi þá vera skipbrot reyndist mér þegar upp var staðið – hinn mesti happafengur. Það getur ef þú leyfir það, líka orðið þinn happafengur. Ég trúi því að ef maður meðtekur raunverulega skilaboðin frá líkama og sál, að þá verði erfitt að snúa til baka. Breytingin er fólgin í því að við erum ekki lengur hlutlausir þátttakendur í eigin lífi heldur skapandi kraftur. Ég vona svo innilega að þú kveikir á perunni eins og ég, að þú upplifir þetta sama: „Aha – Einmitt“. Að þú öðlist hugrekki til þess að viðurkenna sjálfan þig sem móttækilega manneskju með háþróað innsæi og gáfnafar og finnir löngun til þess að vera virkur í eigin lífi, tilbúinn til þess að opna augun og sjá þig heildrænt til líkama og sálar og vilja til þess að efla líf þitt hvað varðar heilsu, fjárhag og almenna vellíðan.