Viðhorf hefur áhrif á verki en verkur er tungumál líkamans, nokkurskonar töfrar þar sem líkaminn sendir boð til heilans um að eitthvað sé að. Það sem gerir holdsveiki svo hræðilegan sjúkdóm er að það koma engin boð til heilans og fingur og tær detta af án fyrirvara eða verkja. Reiði veldur verkjum. Sýrustigsjafnvægi þarf að vera svo hófstillt neysla ávaxta, kjöts, sykurs, kaffis og brauðs dregur úr verkjum og vanlíðan. Þeir sem borða súrmjólk eða aðra súra mjólkurvöru daglega ættu að borða eitthvað sýruminna og athuga breytingu á líðan. Það er okkur mikilvægt að finna verki því líkaminn notar til að láta vita ef eitthvað er að. Við horfum á staðsetningu, hugsanlega útgeislun, einkenni, eðli, tímasetningu og það sem gerir hann verri og það sem léttir á honum. Verkur frá bólgnum botnlanga er t.d. oft staðsettur nálægt naflanum í byrjun en færist síðan yfir í hægri hluta kviðar þar sem botnlanginn er. Verkur frá bólginni gallblöðru getur verið staðsettur undir hægra herðablaði. Hjartaverkur getur verið staðsettur efst í kviðarholi. Stundum er staðsetning verks greinilega afmörkuð en verkur getur einnig verið dreifður yfir stórt svæði. Útgeislun getur verið upp í háls, tennur og neðri kjálka eða út í handlegg. Verkur frá gallblöðru er oft staðsettur hægra megin í kvið með útgeislun aftur í bak, hægra herðablað og öxl. Verkur frá nýrnasteini er oftast staðsettur í síðunni en getur haft útgeislun niður í þvagblöðru, nára eða ytri kynfæri. Við notum eftirfarandi orð um verki: stingandi, skerandi, herpandi, brennandi, malandi og fleiri. Fleira getur skipt máli til hins betra eða verra t.d. tímasetning: verstir um nætur, að morgni; snerting, hreyfing, fæða, áreynsla, hiti, kuldi. Hjartaöng kemur t.d. oftast við áreynslu eða kulda og hún lagast við hvíld, verkur frá gallblöðru getur versnað eftir feita máltíð og verkur frá sári í maga eða skeifugörn versnar venjulega við föstu en lagast við máltíð. Fylgikvillar fylgja oft verkjum og gefa vísbendingar um hvað er í gangi t.d. getur hiti eða roði í húð bent til sýkinga, andnauð fylgir í hjartavandamálum, ofsaverkir fylgja gjarnan nýrna- og gallsteinum sem og ógleði og uppköst. Botnlangabólgu fylgir vægur sótthiti og ógleði eða uppköst og heilahimnubólga stífan háls. Sársaukaþröskuldur manna er mishár og skiptir líka máli upplag einstaklingsins, andlegt, líkamlegt ástand, næring, streita o.m.fl. (JÁ tók saman. Heimild: Mbl. 1996).